Club 27300
- District 1360
- Charter number
Rótarýklúbburinn Reykjavík – Árbær var stofnaður 29. mars 1990 í Safnaðarheimili Árbæjarkirkju við Rofabæ og þar hefur síðan verið aðsetur og fundarstaður klúbbsins. Á sumrin hafa nokkrir fundir þó verið haldnir í húsakynnum Árbæjarsafns. Móðurklúbbur er Rótarýklúbburinn Reykjavík – Breiðholt sem veitti dyggan stuðning við fyrstu skrefin.
Fyrsti fundur rótarýklúbbsins var haldinn 5. apríl 1990 og þá fjallaði Jón Sigurðsson þáverandi iðnaðarráðherra um iðnaðar- og orkumál. Fullgildingarhátíð var haldin 28. september 1990 í rafveituheimilinu í Elliðaárdal. Þá var fáni klúbbsins einmitt kynntur til sögunnar en hönnuður hans er Gylfi Guðjónsson arkitekt og félagi okkar frá upphafi. Stofnfélagar voru 32.
Ávallt hefur verið lögð áhersla á að fluttir væru fræðandi fyrirlestrar um málefni sem eru ofarlega á baugi í þjóðfélaginu eða á alþjóðlegum vettvangi og sem mikilvæg eru á einn eða annan hátt. Starfsgreinaerindi hafa verið í hávegum höfð og gegnt mikilvægu hlutverki sem og heimsóknir til fyrirtækja. Fyrir fyrstu stjórnum klúbbsins vakti að byggja upp klúbbstarf sem legði áherslu á fræðslu og almenna mannrækt innan þess ramma sem lög og reglur Rótarýhreyfingarinnar gera ráð fyrir.
Fundir og ferðir með mökum, bæði innanlands og erlendis, hafa alla tíð verið snar þáttur í félagslífi klúbbsins í gegnum árin og hefð komist á ýmsa fundi og ferðir. Þannig má nefna jólafund sem er haldinn ár hvert og þar sem fenginn er rithöfundur til þess að lesa úr nýrri bók sinni, sungin nokkur jólalög og hlýtt á félaga okkar séra Þór Hauksson flytja jólahugvekju. Annað dæmi er heimsókn að Sólheimum í Grímsnesi haustið 2009 með viðkomu í sumarbústað á eftir. Vel heppnaðar ferðir til Frakklands, Ítalíu, Spánar og Þýskalands í liðnum árum sanna samstöðuna og hinn góða anda sem er í klúbbnum.
Fyrsti forseti klúbbsins, Steinar Friðgeirsson, gegndi árið 2000-1 starfi umdæmisstjóra á Íslandi. Í lok júní 2001 var komið að klúbbnum að halda hið árlega umdæmisþing sem var hið 55. í röðinni. Samspil mannlífs, atvinnulífs og náttúru í 110 Reykjavík var yfirskrift rits klúbbsins sem gefið var út í tilefni þingsins. Með því að halda þingið í Árbæjarkirkju, fara í gönguferð um Elliðaárdalinn og heimsækja fyrirtæki í hverfinu má segja að þingið hafi endurspeglað þessi heit. Með samstilltu átaki félaga í klúbbnum fór allt vel fram og tókst svo vel að það verður ávallt bjart um þessa fallegu daga í júní 2001 í hinni nóttlausu voraldar veröld þar sem víðsýnið skein svo skært.
Markmið Rótarýhreyfingarinnar er að rækta þjónustuhugsjónina sem grundvöll hverrar verðugrar framkvæmdar. Einn af félögum okkar í Rótarýklúbbnum Reykjavík- Árbær, Einar Ragnarsson, setti fjórprófið fram í bundnu máli á eftirfarandi hátt:
Er það satt og er það rétt
Er það siður fagur
Verður af því vinsemd þétt
Vænkast allra hagur
Í þessum orðum kristallast innihaldið í hugsun og starfi Rótarýhreyfingarinnar, þ.e. hátt siðgæði, efling vináttu, viðurkenning á mikilvægi allra gagnlegra starfsgreina og síðast en ekki síst aukinn skilningur með þjóðum heims. Allt felur þetta í sér hugsunina um að þjóna öðrum til að láta gott af sér leiða bæði á innlendum svo og erlendum vettvangi.
Í gegnum tíðina hefur klúbburinn látið ýmislegt gott af sér leiða í því samfélagi sem félagarnir lifa og hrærast í. Þannig hafa verið afhent hvatningarverðlaun klúbbsins árlega í þremur grunnskólum á svæðinu til þeirra nemenda sem sýnt hafa hvað mestar framfarir í námi, í félagsstarfi eða á annan hátt á skólaárinu. Þá hefur klúbburinn styrkt einstaka fjölskyldur sem á einn eða annan hátt hafa átt í alvarlegum erfiðleikum.
Árið 2005 hafði klúbburinn frumkvæði að því móta Rótarýlund með drykkjarfonti og bekkjum við gönguleiðina í Elliðaárdal þar sem hún liggur næst safnaðarheimili Árbæjarkirkju. Það ár voru 100 ár liðin frá stofnun Rótarýhreyfingarinnar og 15 ár frá fullgildingarhátíð Rótarýklúbbsins Reykjavík – Árbær. Verkið var unnið í góðu samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur.
Klúbbfélögum hefur fjölgað hægt en örugglega. Allt fram á síðustu ár hefur klúbburinn verið hreinræktað karlasamfélag en upp á síðkastið hefur það breyst. Nú er hann orðinn blandaður og af liðlega 50 félögum eru fjórar konur sem flestar voru teknar inn í klúbbinn í júní 2009.